Svona getur þú sýnt neyðargistingu stuðning í verki

Kynntu þér Airbnb.org og leggðu þitt af mörkum með því að veita styrki eða taka á móti gestum.
Airbnb skrifaði þann 6. júl. 2023
3 mín. lestur
Síðast uppfært 6. júl. 2023

Þegar náttúruhamfarir eða stórfelld átök neyða fólk til að flýja heimili sín er þak yfir höfuðið eitt það mest áríðandi. Skammtímahúsnæði veitir viðkomandi manneskjum rými til að einbeita sér að öðrum mikilvægum atriðum og gera áætlanir til lengri tíma. Þú getur skipt sköpum með því að bjóða neyðargistingu eða styrkja Airbnb.org.

Hvað er Airbnb.org?

Airbnb.org eru bandarísk góðgerðasamtök af tegundinni 501(c)(3) sem starfa óháð Airbnb. Starf samtakanna hófst árið 2012 þegar Shell, gestgjafi í Brooklyn, New York, opnaði heimili sitt að kostnaðarlausu fyrir fólki sem átti um sárt að binda vegna fellibylsins Sandy. Airbnb óskaði eftir aðstoð annarra samfélagsmeðlima og yfir 1.000 gestgjafar á staðnum opnuðu heimili sín fyrir fólki sem átti ekki í önnur hús að venda vegna óveðursins.

Shell veitti Airbnb innblástur til að koma þjónustu á laggirnar sem gerði gestgjöfum um allan heim kleift að bjóða gistingu á neyðartímum. Árið 2020 varð þessi þjónusta að góðgerðasamtökunum Airbnb.org sem búa að eigin markmiðum og óháðri stjórn.

Í dag vinnur Airbnb.org með stjórnvöldum, frjálsum félagssamtökum og mannúðarstofnunum um allan heim í því skyni að útvega tímabundið húsnæði fyrir fólk í neyð. Starfsemin er fjármögnuð af styrktaraðilum og nýtur góðs af tækniverkvangi Airbnb ásamt alþjóðasamfélagi gestgjafa til að bregðast við náttúruhamförum, átökum og annars konar neyðarástandi.

Frá árinu 2012 hafa Airbnb og Airbnb.org útvegað neyðargistingu fyrir tæplega 300.000 manns, þar á meðal flóttafólk frá Úkraínu og fólk sem varð fyrir barðinu á jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi. Á undanförnum þremur árum hafa meira en 91.000 gestgjafar í 189 löndum skráð sig til að taka á móti gestum. Þörfin fyrir stuðning heldur áfram að aukast.

Hvernig get ég styrkt Airbnb.org?

Þú getur veitt stakt styrktarframlag, hvort sem þú hefur pláss til að taka á móti gestum eða ekki. Ef þú tekur reglulega á móti gestum á Airbnb getur þú gefið ákveðið prósentuhlutfall af hverri útborgun. Í öllum tilvikum rennur styrkur þinn þó 100% til fjármögnunar á neyðargistingu (en ekki í rekstrarkostnað Airbnb.org).

Hvernig gerist ég gestgjafi Airbnb.org?

Ef þú ert gestgjafi Airbnb getur þú boðið fyrirliggjandi skráningu þína eða nýskráð aðra eign. Þú getur boðið eignina þína að kostnaðarlausu eða með afslætti í gegnum Airbnb.org.

Þú getur einnig nýskráð þig til að taka á móti gestum eingöngu í gegnum Airbnb.org og tekið þannig aðeins á móti gestum sem þurfa á neyðargistingu að halda. Í því tilviki getur þú aðeins boðið eign þína að kostnaðarlausu.

Gestir Airbnb.org greiða ekkert fyrir gistingu sína. Bókanir eru fjármagnaðar með fjárframlögum. Með því að bjóða eignina þína að kostnaðarlausu eða með afslætti getur þú drýgt styrkina þannig að fleiri hafi aðgang að neyðargistingu.

Airbnb tekur engin þjónustugjöld fyrir gistingu á Airbnb.org. Bókanir njóta verndar AirCover fyrir gestgjafa.

Hverjir eru gestir Airbnb.org?

Samtök sem sinna búferlaflutningum og sérhæfa sig í neyðarviðbrögðum, sem og hjálpa flóttamönnum að koma sér fyrir á nýjum stað, vísa oft á eða eru í forsvari fyrir gesti Airbnb.org. Gestir geta ekki sótt beint um neyðargistingu í gegnum Airbnb.org.

Gestir sem uppfylla skilyrði fyrir neyðargistingu eru meðal annars:

  • Fólk sem hefur þurft að líða fyrir miklar hamfarir og viðurkennt hjálparstarfsfólk sem sinnir hjálparstarfi.

  • Flóttafólk eða hælisleitendur, fólk með sérstakt flóttamannaleyfi eða viðurkennda stöðu flóttafólks af mannúðarástæðum.

Gjaldgengir gestir gætu fengið inneign hjá Airbnb.org til að bóka neyðargistingu og góðgerðasamtök sem við vinnum með gætu einnig bókað fyrir hönd skjólstæðinga sinna og séð um samskiptin við gestgjafann.

Eignin þín getur verið griðarstaður fyrir fólk í neyð. Dima, gestur Airbnb.org í Berlín, yfirgaf Úkraínu árið 2022. Ég glímdi við miklar tilfinningar fyrstu dagana,“ segir Dima. „Ég veit hreinlega ekki hvort vóg þyngra; að vera í öruggu rými eða bara að meðtaka allan stuðninginn.“

Koma gestir til með að vita að ég sé stuðningsaðili Airbnb.org?

Já. Með því að bjóða neyðargistingu að kostnaðarlausu eða með afslætti; eða með því að gefa prósentuhlutfall af útborgunum þínum með reglubundnum hætti, færð þú merki styrktaraðila Airbnb.org sem kemur fram á notandalýsingu þinni sem gestgjafa.

Milljónir manna um allan heim þurfa að flýja heimili sín vegna átaka og hamfara. Þú getur skipt sköpum í lífi flóttafólks og hjálparstarfsfólks með því að opna heimili þitt eða styrkja málstaðinn.

Airbnb
6. júl. 2023
Kom þetta að gagni?